Svartur spádómur frá skoskum miðli - væntanlega ekki fjölmiðli þó

Fékk þetta sent á tölvupósti í dag - læt það bara flakka hérna. Er kannski ansi langt gengið í svartsýninni en vakti mig engu að síður afar kröftuglega til umhugsunar. Erum við í alvöru til í að það verði bara enn ein Framsókn-Sjálfstæðisflokkur ríkisstjórn sem tekur við næst???

---------------------------------------------

Spádómurinn:

Subject: til umhugsunar...

Þetta er opinberun Jóhannesar Georgs, sem réttu nafni heitir Johanes George Lee og er skoskur sjáandi sem hefur séð
marga atburði fyrir, t.d. forsetakjör Obama, skógareldana í Ástralíu, og efnahagshrunið á Íslandi.

Hér á eftir er lausleg þýðing úr ensku á sýn hans á framtíð Íslands á næstu árum.

2009: Forsætisráðherra nýju ríkisstjórnarinnar, Jóhanna, er heiðarleg og dugleg, en
því miður fær ríkkistjórn hennar fáu áorkað til góðs. Orsök þess er mikil
ringulreið og óeining í þinginu og stjórnkerfinu. Fátt gengur í haginn. Það
tekst að koma Davíð úr Seðlabankanum og skipa einn Seðlabankastjóra, en það
breytir litlu um efnahagsöngþveitið. Atvinnuleysi eykst, fólk missir eignir
sínar. Þúsundir fólks flytja úr landi á þessu ári, mest til Noregs og Kanada, en
einnig til fleiri landa.

Seinast í Apríl verða kosningar til þings. Nokkur ný framboð taka þátt í kosningum, en ekkert þeirra fær mann á þing, heldur taka þau
fylgi frá Samfylkingu og Vinstri grænum. Framsóknarflokkurinn vinnur góðan kosningasigur og Sjálfstæðisflokkurinn fær frekar slaka útkomu.

Þessir flokkar fá nauman meirihluta saman, og mynda ríkisstjórn að loknum kosningum, við lítinn
fögnuð þjóðarinnar. Verðbólga minnkar á fyrri hluta ársins, en stígur í yfir 30%
í árslok 2009.

2010: Skelfilegt ár. Ríkisstjórn sjálfstæðis/Framsóknar, umsnýr öllu sem fyrri ríkisstjórnin gerði. Allar stöður eru pólitíkst skipaðar

samkv. helmingaskiptareglu flokkanna. Verðbólga nær 50% Eini atvinnuvegurinn sem
blómgast sem aldrei fyrr er dópsala. Atvinnuleysi nálgast 20%. Glæpaalda gengur
yfir höfuðborgarsvæðið. 20.000 manns flytja úr landi, aðallega af
höfuðborgarsvæðinu. Samt er ástandið betra í sumum landshlutum, þar er þokkalegt
atvinnustig, og minni glæpir og eiturlyf. Dæmi um slíka staði eru:
Vestmannaeyjar, Hornafjörður, Dalabyggð. Snæfellsnes, Vopnafjörður. Fólk sækir á
alla þessa staði úr eymdinni og glæpunum á Höfuðborgarsvæðinu. Hjónaskilnaðir
slá öll met.

2011: Miklar óeirðir í landinu. Byggingar og jafnvel heilu hverfin brennd í þessum
óeirðum. Lögreglan ræður ekki við neitt, þótt hún sé nú öll búin skotvopnum.
Útgöngubann í Reykjavík. Atvinnuleysi og þjóðargjaldþrot blasir við.
Ríkisstjórnin er óstarfhæf. Daglegir götubardagar á seinni hluta ársins. Fengin
óeirðalögregla búin vopnum frá Danmörku til að stilla til friðar, en það hjálpar
lítið. 20.000 manns flytja úr landi.

2012: Olíuleit norðaustan við Ísland. Miklar vonir bundnar við hana. Annars flest í
ólesti. Vopnuð átök í Reykjavík. Jarðskjálfti gengur yfir Selfoss og Hveragerði
og veldur miklum skemmdum. 25.000 flytja úr landi.

2013: Niðurstöður olíuleitar valda vonbrigðum. Ekki hagkvæmt að vinna olíu, amk. miðað við nútíma tækni.

Ísland er endanlega lýst gjaldþrota. Evran kostar 2000 krónur. 150% verðbólga. 20.000 flytja úr landi.

2014: Ísland óskar eftir aðild að Evrópusambandinu EU. En þessari umsókn er hafnað í
Brussel. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur við stjórn landsins, ríkisstjórn og
forseti eru rekin úr störfum, og þingið leyst upp. Í lok ársins, taka Bandaríki
Norður Ameríku USA. Við stjórn Íslands í umboði Alþjóðabankans. Obama forseti
USA, er á þessum tíma kominn á kjörtímabil nr. 2. Það gekk vel að komast út ur
kreppunni í USA. Staða Íslands undir stjórn USA, verður svipuð og staða Puerto
Rico. Sem sagt öll stjórn frá Whasington, en bæjar og sveitarstjórnum verður
leyft að starfa, undir ströngu eftirliti.

Á þessum tíma er íbúafjöldi Reykjavíkur um 50.000, og alls landsins um 200.000 í stað 320.000, árið 2008.

Þriðjungur þjóðarinnar er fluttur úr landi


mbl.is Gylfi Zoëga: Svartar horfur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

þetta er einhver sú al mesta þvæla sem hefur verið fest á blað. sá með þetta skrifaði er annað hvort að hlægja sig máttlausan yfir því að menn síni svona skrifum áhuga eða þá að viðkomandi hafi verið illa dópaður á ofskynjunarlyfjum.

Fannar frá Rifi, 20.2.2009 kl. 00:55

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta eru skelfileg skrif og vonandi rætast þau ekki.

Nýtt lýðveldi  - skrifa undir áskorun  HÉR 

Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.2.2009 kl. 01:03

3 Smámynd: Baldvin Jónsson

Veit ekki með ofskynjunarlyfin enda líklegra að þú sért fróður um þau verandi alinn upp í næsta nágrenni berserkjahraunsins, en þetta er samt áhugaverð pæling. Ekki það að þetta sé líklegt til að vera sannleikur, heldur hitt að þetta vekur mann þó hressilega til umhugsunar um að líklegast í stöðunni í dag - miðað við skoðanakannanir - er óbreytt ástand áfram miðað við síðastliðin 20 ár.

Það er mikið skelfilegri tilhugsun en neysla einhvers skota á ofskynjunarlyfjum

Baldvin Jónsson, 20.2.2009 kl. 01:03

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Mér varð svo mikið um að ég linkaði þetta yfir á mína síðu.  Vona að það hafi verið í lagi

Sigrún Jónsdóttir, 20.2.2009 kl. 01:12

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þetta er skelfileg spá, vonandi rætist hún ekki. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.2.2009 kl. 01:19

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég held að þetta gangi alveg eftir!

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.2.2009 kl. 01:38

7 identicon

Ég heyrði þetta fyrst á útvarpi sögu, þegar sjálfur útvarpsstjórinn þar las þetta upp eins og einhverja stórfrétt, og birti svo þetta á heimasíðu stöðvarinnar.  Ég prófaði að gúggla nafnið á þessum skota en ekkert kom út úr því, mér virðist að þarna sé einhver evrópusinni að djóka, ( nema þetta sé Brown eða Baldur Mcqueen, líkist þeirra óskhyggju ) Sko ef að eitthvað svona mundi gerast held ég að td Norðmenn og Danir yrðu fljótir að senda hjálp hingað. Mér finnst að útvarp saga hafi sett mikið niður við að birta svona bull, og ekki nóg með það heldur var endurfluttur þáttur með Hermundi nokkrum Rósinkrans talnaspeking um árið 2009. Hann hefur verið með spáþætti í nokkur ár á þessari stöð og spáði td því fyrir 2 árum,  að útvarpsstjórinn Arnþrúður Karlsdóttir mundi hætta af einhverjum orsökum seinna á því ári, það gekk ekki eftir, nema hún fór kanski í sumarfrí, en er ennþá með útvarpsstöðina.  Einnig spáði hann í haust að Obama mundi ekki sigra forsetakostningarnar, vittu til, sagði hann ( allar skoðanakannanir bentu til sigurs Obama þá ) Obama mun ekki ná kjöri, það verður annar. Ekki nóg með það heldur virtist þessi spádómur líka vera byggður á stjórnmálaskoðunum Hermundar og einhverjum kjaftasögum, og einhverju sem að er búist við eins og td Heklu eða Kötlugosi. Einnig heyrði ég einhvern ávæning af spádómum Sirrýar spákonu, Sirrý þessi er yfirlýstur Davíðsaðdáandi og bar opinberun hennar fyrir árið 2009 vott um það. Davíð kæmi sem sigurveigari með pálmann í höndunum og bjargaði Íslensku þjóðinni útúr krísunni. Einnig má benda á að þessi ´Skoti , ( eða andskoti ) sem að hefur samið þetta bull virðist eitthvað vera kunnugur málum hér á Íslandi. Það er verið að segja að ástandið sé svo slæmt framundan hjá okkur að stjórnvöld vilji ekki segja okkur sannleikann, þá spyr ég: getur ekki verið að ástandið verði ekki svo slæmt, en það megi ekki heldur upplýsa okkur um það svo það ruggi ekki bátnum, meðan að ástandið er svona viðkvæmt hjá Evrópusambandinu ?

eyjaskeggi (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 04:16

8 identicon

Ég verð bara að segja að þessi spá er mjög óraunhæf. Mér þykir alveg allt í lagi líkur á því að spáin fyrir fyrsta árið gerist, enda er ekki verið að spá langt fram í tímann.

-Ég get ekki séð að það verði einhverríman ráðið pólitískt í stöður (nema hugsanlega í örfáum tilvikum). Það hefur bæði sýnt sig og sannað að það er óhagkvæmt og það fellur ekki í "kramið".

-Ég get ekki skilið hvernig það mun ganga upp að það sé 150% verðbólga, eiturlyfja sala á fullu, enginn á samt pening og gjaldmiðillinn algjörlega hruninn. 

-10% þjóðarinnar mun ekki flytja á einu bretti úr landi. Fyrir utan það að ef 10% þjóðarinnar flytur úr landi hvernig getur þá atvinnuleysi hækkað um þetta mikið? Varla flytur bara fólk með atvinnu úr landi.

Það sem á að gerast á árunum 2011-2014 er náttúrlega bara vitleysa, nema kannski með olíuleitina og hugsanlega jarðskjálftana. Ég held að það sé nokkuð ljóst, í samstarfi við IMF, þá getur ísland ekki brugðið útaf þeirri efnahagsstefnu sem er á borðinu núna. Mér þykir það ansi fjarstæðukennt að þetta muni gerast með slíka efnahagsstefnu og enn þykir mér ólíklegra að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn myndi einhertímann bregða útaf þessari stefnu (nú nefni ég þessa 2 flokka þar sem þeir eru í þessari svokallaðari spá)

Það er valla að það sé hægt að flokka þetta undir "worst-case-scenario".

Ragnar Snorrason (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 04:18

9 Smámynd: Árni B. Steinarsson Norðfjörð

Það þýðir jafnan ekki að gúgla ensk nöfn.

Hvað sem öllu líður þá er þessi spádómur viðvörun um að verði ekki gengið í ESB og Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur taki við þá byrji þeir að umsnúa öllu sem Jóhönnustjórnin hefur gert og klúðra málum og síðan mun klúðrið fara að lifa sjálfstæðu lífi og éta okkur öll inn að beini og ganga frá sjálfstæði okkar og landi dauðu.

Árni B. Steinarsson Norðfjörð, 20.2.2009 kl. 07:51

10 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þetta er ágætis "worst case scenario". Viðvörun til þjóðarinnar og stjórnvalda að verði ekki tekið til hendinni af krafti, mun allt fara til fjandans. Ég reyndi líka að gúggla kauða en fann ekkert. Hef ekki átt erfitt með að gúggla ensk nöfn hingað til. Ef einhver ropar á vefnum er hann kominn inn hjá Gúgl, svo ég hefði gaman að því að heyra meira um þennan gutta.

Hitt er svo annað mál að kjósi þjóðin FramSjálfs stjórnina yfir sig aftur, er henni ekki viðreysnar von. Ef ég væri trúaður myndi ég biðja þess að svo verði ekki, en læt mér nægja að vona og tuða í staðinn. En að þriðjungur flytji úr landi á komandi fimm árum? 50.000 í Reykjavík sem brunnin er til grunna? Varla. Þetta minnir á "spádómana" sem grasseruðu fyrir aldamót að Reykjanesið myndi rifna frá meginlandinu í hamförum.

Villi Asgeirsson, 20.2.2009 kl. 08:32

11 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Ætli sá er spáði þessari vitleysu hafi verið að lesa greinasafn Sigurfreys?

http://www.sigurfreyr.com/island.html

Ef farið er neðst á síðuna má lesa um erlend yfirráð yfir Íslandi.

En ég trúi frekar á eitthvað annað en svona vitleisu.

Ólafur Björn Ólafsson, 20.2.2009 kl. 08:47

12 identicon

Jóhannesar Georgs spáði því einnig að ég yrði ríkasti maður Íslands árið 2015, þá væri ég LOKSINS búinn að finna réttu konuna, og saman myndum við eignast tvö börn og síðan myndi fjölskyldan vinna 898 milljónir "þrisvar sinnum" í Víkinga Lóttó á sama árinu (ótrúlegt en satt) - en hann sá einnig að ég myndi gefa alla þessar milljónir til "Hjálpræðishersins" þannig að þjóð mín fengi "húsaskjól & heita máltíð" en ríkidæmi mitt kemur nefnilega innan frá & þeim AUÐ verður aldrei hægt að stela frá mér... - margur verður "af aurum api..!".

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 10:07

13 identicon

Þegar leiðindi ganga yfir.. þá spretta trúarnöttar og spámiðlar upp eins og sveppir að hausti.

DoctorE (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 13:51

14 identicon

Þetta er hræðileg framtíðarspá! Það er leiðinlegt að vera með svartsýni en ég fylgist með fréttum að heiman frá Danmörku og hef það á tilfinningunni að ástandið eigi eftir að verða svo miklu verra en nokkurn órar fyrir! Vonandi samt ekki svona slæmt... Takk annars fyrir gott blogg sem ég les reglulega! 

Agla (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 16:36

15 identicon

Vil ekki vera neikvæður en þetta er bara rugl og þvæla.

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 17:53

16 identicon

Það er sorglegt að menn séu að birta svona bölvaða þvælu sem getur í raun stórskaðað þetta land enn meir en orðið er og er sannarlega komið nóg af svona bulli. Fólk er viðkvæmt á þessari stundu fyrir framtíðarspám og það er mikið ábyrgðarleysi að útbreiða svona rugl.

Gunnar Einarsson (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 00:37

17 Smámynd: Baldvin Jónsson

Gunnar, þó að þetta sé að sjálfsögðu hálfgert bull og væntanlega lítið mark á takandi - er augljóslega ekki verið að tala um vísindi hérna - að þá finnst mér þetta engu að síður góð hugleiðing til þess að halda mér vakandi.

Það er ekkert hægt að skaða okkur meira Gunnar nema þá fyrst og fremst með því að "reyna bara að gleyma þessu og halda áfram".  Þetta má aldrei gleymast - við erum skyldug til þess að halda vöku okkar.

Baldvin Jónsson, 21.2.2009 kl. 00:43

18 identicon

Sæll Baldvin. Það sem ég er að benda á að aðgát skal höfð í nærveru sálar, margir eru í þeirri stöðu að óttast um framtíð sína og sinnar fjölskyldu og eru viðkvæmir fyrir allri svartsýni.  Ef fólk trúir svona spádómi fer það kanski að breyta samkvæmt því, þeir sem eru að hugsa um að flytja úr landi láta kanski verða af því og þeir sem eiga fé í bönkum fara kanski að taka það út og spádómurinn fer kanski að rætast ef nógu margir trúa honum.

Mér finnst þetta allt bera þess merki að þetta sé soðið saman af einhverjum hér heima  í pólitískum tilgangi og  sett til höfuðs Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og eigi ekkert skylt við dulræna spádóma.

Gunnar Einarsson (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband