Skríll eða þjóðin?

Ég var á Austurvelli stóran hluta dagsins í gær og langt fram á nótt. Það sem gerðist í gær var einhvern veginn þannig að einhver tók tappann úr og öll orkan sem búin er að safnast upp hjá fólki fékk útrás. Orkan fékk hins vegar almennt ekki útrás í skrílslátum heldur samstöðu, söng, trommuslætti, dansi og afar sterkri samkennd.

Og nú er allt útlit fyrir að þetta verði daglegt brauð þangað til að ríkisstjórnin samþykkir að boða formlega til kosninga.

Það voru stundarkorn í gær þar sem að ég horfði á einstakling stíga yfir línuna og gera hluti sem að við eigum einfaldlega ekki að gera og það hryggði mig. Ekki bara vegna þeirra einstaklinga, heldur fyrst og fremst vegna þess að ég veit að þessir einstaklingar verða aðalfréttaefnið þegar svona stendur yfir.

Hér er ég að tala um atvik þar sem reiðir "krakkar" á ýmsum aldri misstu sig í að ögra lögreglunni, sem að mestu var bara að sinna starfi sínu - þó lögreglan hafi á sama tíma verið einu tilfelli ofbeldis sem að ég varð vitni að í gær. Sérstaklega þar sem að hún tók að sprauta eiturúða yfir fólk sem stóð í friði og trommaði í Alþingisgarðinum, í friði og ró. Það gerði mig og mikið af venjulegu jarðbundnu fólki afar reitt í gær.

Og atvik þegar leið á nóttina þegar lítill hluti hópsins fékk þá skyndilegu þráhyggju hugmynd að tréð yrði að brenna. Ekki það að tréð sem slíkt skipti einhverju máli - því hefði líklega verið hent á allra næstu dögum og aðgerðin sparaði borginni förgunina - heldur vegna þess að svona aðgerðir verða ítrekað miðpunktur fréttaflutnings.

Því bið ég þig kæra þjóð - stattu með mér - mótmæltu eins og þú getur áorkað, láttu heyra í þér - en hegðaður þér eins og til er ætlast í siðmenntuðu samfélagi. Viljirðu hjálpa til þá þarf að láta af skrílslátunum og taka stöðu saman með framkomu sem er hafin yfir gagnrýni. Það er að segja almenna gagnrýni - það verður alltaf fólk sem bara gagnrýnir allt - sérstaklega sé það gert á hlut Sjálftökuflokksins.

En ég endurtek - kæra þjóð stöndum saman á Austurvelli í dag. Það er eðlileg yfirveguð lýðræðisleg krafa að kosningar verði boðaðar sem fyrst.


mbl.is Óslóartréð borið á bálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Birgisson

Ég styð ykkur ekki og þó ég sé hluti af þjóðinni þá talið þið ekki fyrir mína hönd.

Ástæðan er sú að mér finnst sem stendur að það liggi meira á því að koma með aðgerðaáætlun til að bjarga og endurreisa atvinnulífið. Ef farið er í að rjúfa þing og fara í gegnum kostningar núna þá verðum við ekki komin með neinar slíkar áætlanir og framkvæmdir fyrr en í lok þessa árs. Það tekur tíma að fara í gegnum kostningar og við höfum einfaldlega ekki tíma til þess eins og er. Í sjálfu sér vildi ég gjarnan að við gætum byrjað a morgun með nýja ríkisstjórn fulla af góðu fólki. Því miður þá er það einfaldega ekki raunhæft.

Ég vill því frekar sjá núverandi ríkisstjórn taka sig saman í andlitinu og setja saman og setja í gang endurreisnarvinnu, með samráði við stjórnarandstöðuna. Strax og sú áætlun er komin í gang ætti hinsvegar að rjúfa þing og kjósa og í framhaldi af því að hefja samningaviðtæður við ESB.

Til að taka samlíkingu þá má segja að þjóðarskútan sé upp á skeri og því er fyrsta verkefni að koma í veg fyrir að hún sökkvi og koma henni í var. Ekki að eyða tímanum í að skipta um áhöfn eða að kaupa nýja vél (ESB umræðan).

Georg Birgisson, 21.1.2009 kl. 10:43

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Georg, fjölmargir voru sammála þér framan af. Nú eru hins vegar að verða liðnir 4 mánuðir og enn bólar ekkert á aðgerðum. Ástandið er reyndar svo súrealískt að eitt af fyrstu málum á þingi eftir jólafrí er umræða um sölu áfengis í verslunum?!?

Hversu lengi getum við beðið eftir aðgerðaráætlun? Það þarf að skipta fólkinu þarna út eins hratt og mögulegt er!

Baldvin Jónsson, 21.1.2009 kl. 10:47

3 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Af hverju fær þjóðin ekki að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún greiði Icesave reikningana með allri þeirri fátækt sem þeir kosta okkur eða hvort við hunsum þá með allri þeirri fyrirdæmingu sem það kostar okkur. Aldrei höfum við staðið frammi fyrir öðrum eins örlögum, og það er lágmark að þjóðin fái að kjósa um þetta. Ríkisstjórnin er með ESB umræðunni að leiða athygli þjóðarinnar frá þessu hrikalega máli.

Guðrún Sæmundsdóttir, 21.1.2009 kl. 11:06

4 Smámynd: Georg Birgisson

Ættu kröfugöngurnar og fjölmiðlaumræðan ekki frekar að snúast um megin málið, krefja ríkisstjórnina um aðgerðaáætlun frekar en að reyna að raska stjórnarsamstarfinu. Á mótmælaskiltunum ætti að standa "Við krefjumst aðgerða", "Hvað ert þú að gera Geir?" eða annað því líkt.

Ég hef miklar áhyggjur af afleiðingum þess að láta efnahagslífið reka á reiðanum fram hefir árinu. Ég held að það geri niðursveifluna enn dýpri.

Reyndar tek ég undir með þér að ríkisstjórnin hefur misst fókus. Tíminn virðist fara í að kítast í hvor öðrum, skera niður fjárlög og þrátta um hvort við ættum að huga að því að ræða við Evrópusambandið um að gagna til samningaviðræðna um aðild að ESB. Það sem þjóðin þarf að gera er að krefja stjórnina um að halda sér að efninu og koma með aðgerðir. Ekki að reyna að brjóta upp og trufla stjórnina.

I framhaldi af því vil ég svo sjá þessa stjórn á bak og burt og fá nýtt fólk í staðinn.

Georg Birgisson, 21.1.2009 kl. 11:11

5 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Baldvin, við Lárus erum með ykkur í anda og fylgjumst með úr fjarlægð. Áfram Ísland!

Ragnhildur Jónsdóttir, 21.1.2009 kl. 12:08

6 Smámynd: Baldvin Jónsson

Georg, skoðaðu endilega vefinn okkar http://lydveldisbyltingin.is

Það hafa þegar komið fram margar tillögur að lausnum og þér er velkomið að bæta þar við flóruna, samtökin okkar verða ávallt öllum opin. Það eru komnir fram að mínu mati margar hugmyndir um betri kosti fyrir mig og fjölskylduna mína og veskið okkar, en nuúverandi valdhafar eru að bjóða mér upp á.

Baldvin Jónsson, 21.1.2009 kl. 12:36

7 Smámynd: Stefán Óli Sæbjörnsson

Menn tala eins og þetta blessaða stjórnarsamstarf sé bara í lagi. Samfylkingin er klofin og vill út úr ríksstjórn og þegar það er þá er ríkisstjórnin fallinn, hvort sem mönnum líkar það betur eða ver. Hvað svo jú svona hóp manna eins og Lýðveldisbyltinguna sem er þverskurður af samfélaginu úr öllum stéttum, ég t.d VAR sjálfstæðismaður fram í fingurgóma var í SUS og í dag gef ég skít í allt sem heitir flokkapólitík því hún er búin að vera á Íslandi landið okkar ber ekki þessa snobb samkundu einsog Alþingi er orðið.

Stefán Óli Sæbjörnsson, 21.1.2009 kl. 12:47

8 Smámynd: Stefán Óli Sæbjörnsson

F... rak mig í Entertakkann vantaði smmá inná....

Hópur eins og Lýðveldisbylingin er nauðsynlegur því hann stækkar bara og þaðan geta komið lausnir ef fólk viðurkennir fyrir sér ástandið. ENTER

Stefán Óli Sæbjörnsson, 21.1.2009 kl. 12:50

9 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Baldvin, fólk er einfaldlega búið að missa þolinmæðina, og getur ekki lengur beðið þægt og prútt.

Yfirvöld eru farin að gefa út handtökuskipanir á það fólk, sem er að missa allt sitt, (sýna valdið), Fólk er örvæntingarfullt, og hrætt um framtíð sína, eftir fjóra mánuði hefur ekkert svar komið, við spurningunni um hver framtíðin er. Mótmælin hljóta að stigmagnast, hvernig dettur þér í hug, að við Íslendingar getum mótmælt á annann hátt en annars staðar í heiminum ? Á þrettánda þúsund atvinnulaus, talað er um þrjátíu þúsund heimili, eða fleiri, sem horfa fram á gjaldþrot, hinir raunverulegu glæponar sleppa, í skjóli aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar. Landráð í skjóli aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar. Sekir menn fela sig í Alþingis húsinu, sækjum þá ! Haga sér eins og í siðmenntuðu samfélagi, hvar er það ?, ekki hér. Í mestu krísu, sem þessi þjóð hefur séð, síðan í kreppunni miklu 1930, taka þingmenn sér mánaðar langt jólafrí !. Og fyrsta dag, sem þeir koma saman, ræða þeir um hvort selja eigi áfengi í kjörbúðum, en ekki eitt mál á dagskrá um yfirstandandi ástand. Það verður að vekja þetta lið, og ef það þarf "skrílslæti" til, þá það. Og ef þú heldur að tilgangurinn sé að komast í fréttir, já, það er málið. Hvernig heldur þú að það líti út fyrir ríkisstjórnina, þegar fréttir af örvæntinarfullu fólki er jafnvel tilbúið að standa frammi fyrir brynvarinni sveit lögreglu, til að berjast fyrir lífi sínu, beras um heimsbyggðina.

Og hver er svo árangurinn af "Skrílslátunum"?,

Í dag hefur þingfundi verið frestað, og nú eru forystumenn flokkana farnir að tala um að kosningar séu nauðsynlegar.

Við, þessi kjarklausu, og lúbörðu, eigum að þakka þessu fólki fyrir að hafa kjark til að berjast fyrir okkur hin, ekki gagnrýna, eða draga úr því kjarkinn.

Áfram, áfram, ekki gefa eftir fyrr en réttlætið hefur náð fram að ganga !!

Börkur Hrólfsson, 21.1.2009 kl. 12:51

10 identicon

Góðar vangaveltur Baldvin.

Ég tek heils hugar undir að mótmælendur verða að gæta sín svo vopnin snúist ekki í höndum þeirra.  Ég vil ekki og get ekki dæmt um einstök atvik sem urðu við Alþingshúsið.  Þar buðu aðsatæður upp á að eitthvað færi úrskeiðis (með vilja eða óviljandi).  Það er deginum ljósara að lögregla verður að draga línu við þessar aðstæður og ég fæ ekki betur séð en að í mótmælaaðgerðum að undanförnu hafi lögreglan sýnt ótrúlegt umburðarlyndi og látið margt óátalið sem ekki hefði verið gert áður og myndi ekki viðgangast í öðrum löndum.  Sjálfur vil ég geta farið í mótmælagöngur, á mótmæla- og baráttufundi þar sem ég get latið skoðanir mínar í ljós, en ef þetta fer svona úr böndum er sá réttur tekinn af mér.  Því hvet ég alla sem berjast fyrir góðum málstað og sætta sig ekki við órétt að fylgja eftir sínum kröfum með rökum og aðgerðum sem eftir er tekið án þess að skemma, meiða eða ógna.  Baráttukveðjur

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 13:37

11 Smámynd: Georg Birgisson

Sæll Baldur,

Er búinn að skoða vefinn ykkar. Margt gott sem þar kemur fram en þarna vantar nokkuð á það að hægt sé að kalla þetta stefnuskrá fyrir stjórnmálaflokk. Vefurinn fjallar ýtarlega um hvernig haga ætti stjórnskipulaginu og margar ágætar hugmyndir þar.

Það vantar hinsvegar allt um stefnu í málaflokkum. Á þessi flokkur að standa fyrir félaglegum sjónarmiðum eða einstaklingssjónarmiðum, einkaframtaki eða miðstýringu?

Georg Birgisson, 21.1.2009 kl. 14:15

12 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sæll aftur Georg og þakka þér fyrir að skoða málið.

Enn sem komið er er meginmarkmið hreyfingarinnar einungis að bjóða fram til þess að koma á nauðsynlegum lágmarksbreytingum til þess að endurheimta lýðræðið. Flest okkar telja það ekki veita nýju framboði á þessum tímum trúverðugleika ef það ætlar síðan bara að setjast á þing og "njóta lífsins". Við erum því líklegust til þess að leggja okkur niður um leið og meginmarkmiðum hefur verið náð eða liggur skýrt fyrir að þau muni ekki nást.

Mín útópía í dag væri að ná nægu fylgi, lágmark 30%, til þess að geta valið með okkur flokk í stjórn sem að er sammála okkar hugmyndum um breytingar, eða er tilbúinn til þess að samþykkja þær, gera nauðsynlegar stjórnarskrár breytingar og leggja okkur svo strax niður. Kjósa aftur með breytingum á stjórnarskrá samsíðis og þá getur hver sem er boðið sig fram á nýjum forsendum í lýðræði en ekki flokksræði.

Þá hugnast mér best persónulega að á meðan að þessar vinnu stæði við stjórnarskránna væri landinu stjórnað af neyðarstjórn innlendra og erlendra sérfræðinga.

Baldvin Jónsson, 21.1.2009 kl. 19:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband