Hvað er flugeldasalinn þinn tilbúinn til að gera fyrir ÞIG???

Þessi spurning lliggur mér þungt á brjósti núna á þessum ofsaveðurs tíma. Lesum um það stöðugt hvernig eitthvað fólk okkur hinum nánast algerlega ótengt, býður ofsanum byrginn og strunsar út í veðrið til að bjarga okkur og eigum okkar. Af hverju skildi einhver vilji bjóða sig í þetta sjálfboðastarf? Hvernig skildi standa á því að þetta þarf að vera sjálfboðastarf? En meðan að svo er finnst mér að mér beri til þess siðferðileg skilda að styrkja þetta starf, sérstaklega ef ég er á annað borð að fara að versla vöruna sem að ber starf þeirra að stórum hluta, á annað borð.

Las í morgun sögu af manni sem verslaði flugelda hjá einum af einkaaðilunum í gær af því að það var eitthvað aðeins ódýrara. Síðan brást á þetta stórviðri, kjallari mannsins fylltist af vatni og honum leið víst ærið illa þegar að í dag birtust hjá honum nokkrir vaskir sveinar á vegum Landsbjargar og hófu að dæla vatni úr kjallaranum hjá honum þar sem að flugeldapakkarnir frá samkeppnisaðilunum flutu um í vatninu.

Mér finnst þetta virkilega mikilvæg spurning: "Hvað er flugeldasalinn þinn tilbúinn til að gera fyrir þig??"

 

Langar að taka mér það bessaleyfi hérna að birta skrif Jóns Kaldal úr Fréttablaðinu fyrr í mánuðinum:

Leiðari Jóns Kaldal frá því fyrr í mánuðinum:

Jón Kaldal Klukkan þrjú í fyrrinótt var Samhæfingarmiðstöð Almannavarna í Skógarhlíð virkjuð til að samræma störf lögreglu, slökkviliðs og björgunarsveita. Þegar leið að morgni var búið að kalla út allar björgunarsveitir höfuðborgarsvæðisins.

Þetta var þriðja stóra útkall vikunnar vegna aftakaveðurs. Þriðju nóttina í vikunni stóðu sjálfboðaliðar í björgunarsveitum landsins í stórræðum við hliðina á atvinnumönnunum í lögreglunni og slökkviliðinu. Flugvélar voru bundar niður á Reykjavíkurflugvelli, krossviðarplötur negldar fyrir brotna glugga í heimahúsum og skriðið upp á þök í miðju veðravítinu til að festa niður flaktandi bárujárnsplötur. Á Vestfjörðum fóru björgunar­sveitarmenn í þreifandi byl upp á Steingrímsfjarðarheiði til hjálpar fólki sem sat fast í bílum sínum.

Svona er hægt að halda lengi áfram. Í hverjum landshluta voru unnin álíka hetjuverk í vikunni. Björgunarsveitarfólk um allt land hefur enn einu sinni sýnt að starf þess er algjörlega ómetanlegt fyrir samfélagið hér á hjara veraldar.

Nú vill svo til að fram undan er lykiltími í starfi björgunarsveita landsins. Þrátt fyrir að starfi þeirra sé fyrst og fremst haldið uppi með ótrúlega óeigingjörnu og fórnfúsu sjálfboðaliðastarfi þurfa björgunarsveitirnar líka beinharða peninga til ýmissa tækjakaupa. Þetta er ekki ódýr útgerð.
Flugeldasala fyrir áramót er mikilvægur tekjupóstur í fjáröfluninni. Ýmis félög og samtök hafa undanfarin ár teygt sig inn á þann markað og þar með þrengt að svigrúmi björgunarsveitanna til að útvega sér rekstrarfé. Meðal keppinauta björgunarsveitanna eru íþróttafélögin. Þar er líka á ferðinni gott málefni og að sjálfsögðu er ekkert við það að athuga þótt einhverjir vilji styðja sitt félag. Um leið má þó stinga upp á að viðkomandi deili viðskiptum sínum og láti björgunarsveitirnar líka njóta yfir­vofandi skotgleði.

Slysavarnafélagið Landsbjörg er landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda. Innan félagsins starfa um átján þúsund manns í björgunarsveitum, slysavarnadeildum og unglingadeildum. Allt það fólk á inni hjá okkur hinum að við leggjum okkar af mörkum til þess að það hafi til umráða besta mögulega búnað við aðstæður sem geta verið lífshættulegar þegar verst lætur.

Við Íslendingar búum á mörkum hins byggilega heims. Náttúru­öflin eiga það til að hnykla vöðvana með meiri krafti hér en víða annars staðar. Háskinn getur komið upp úr jörðinni, ofan úr fjalli, af hafi eða himnum. Við þær aðstæður er gott að geta treyst á samtakamátt fjöldans sem starfar undir merkjum Landsbjargar.

Ef veðurspárnar ganga eftir mun fólk úr þeim hópi verða næst í eldlínunni strax á morgun þegar spáð er að fjórða óveðurs­lægðin á einni viku gangi yfir landið.

Allsherjar útkall okkar hinna er á flugeldasölustaði björgunar­sveitanna fyrir áramót.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þér Baldvin, auðvitað eigum við að kaupa fratketturnar hjá björgunarsveitunum. Þetta gengi er einstakt og við eigum að styðja við bakið á þeim.

Annars kaupi ég ekki þetta sprengidót, í gamla daga þegar ég var að skjóta þessu dóti upp þá vildi það yfirleitt springa hættulega nálægt mér og ég ákvað að horfa frekar á Hávaðasegg nágranna skjóta sínu dóti upp. Maður getur þá líka smakkað jólaölið á meðan.

Karl Jóhann Guðmundsson (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 01:38

2 Smámynd: Gísli Hjálmar

Ég styð frekar hjálparstarf beint. Ég er einsog svo margir hættur að kaupa þessa flugelda - finnst það bara peningasóun.

Takk fyrir bloggárið ...

Gísli Hjálmar , 1.1.2008 kl. 19:44

3 Smámynd: Óskar

Verðmunurinn er bara svo mikill að það eru margir sem ekki geta leyft sér að versla við björgunarsveitirnar ef þeir ætla að versla á annað borð. Hver verður bara að velja fyrir sig og sína samvisku. Því miður fyrir budduna hjá mér þá sagði samviska mín mér að versla við landsbjörgu.

Óskar, 1.1.2008 kl. 21:25

4 identicon

Óska þér, Maríu og börnunum gleðilegs árs og friðar. Takk fyrir það gamla

Bára (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 00:05

5 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Gleðilegt og gott ár til þín og þinna Baldvin 

Bestu kveðjur

Ragnhildur Jónsdóttir, 2.1.2008 kl. 16:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband